Viðskiptaráðuneyti

465/2007

Reglugerð um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB um mælitæki. - Brottfallin

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi er innleiðing á ákvæðum í tilskipun nr. 2004/22/EB en hún gildir um búnað og kerfi með mælihlutverk sem skilgreind eru í viðaukum tilskipunarinnar um sérstök tæki um vatnsmæla (MI-001), gasmæla og búnað til að umreikna rúmmál (MI-002), raforkumæla fyrir raunorku (MI-003), varmaorkumæla (MI-004), mælikerfi fyrir samfellda og sívirka mælingu á magni vökva annarra en vatns (MI-005), sjálfvirkar vogir (MI-006), gjaldmæla leigubifreiða (MI-007), mæliáhöld (MI-008), víddamælitæki (MI-009) og greiningartæki fyrir útblástursloft (MI-010). Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB er birt í viðauka við reglugerð þessa. Í samræmi við bókun 1 við EES-samninginn skal líta svo á að hugtakið "aðildarríki" í tilskipun 2004/22/EB taki einnig til EFTA-ríkjanna og ber því að lesa sem "EES-ríki". Þegar vísað er til svæðis "bandalagsins" eða "sameiginlega markaðarins" í tilskipun 2004/22/EB þá er átt við svæði aðildarríkja að EES-samningnum.

Á grundvelli ákvæða í tilskipun 2004/22/EB eins og hún er innleidd í íslenskan rétt sam­kvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar, sbr. lög nr. 91/2006, um mælingar, mæli­grunna og vigtarmenn, eru sett nánari ákvæði eftir því sem við getur átt í reglu­gerðum um vatnsmæla, gasmæla og búnað til að reikna rúmmál, raforkumæla fyrir raun­orku, varmaorkumæla, mælikerfi fyrir samfellda og sívirka mælingu á magni vökva annarra en vatns, sjálfvirkar vogir, gjaldmæla leigubifreiða, mæliáhöld og greiningartæki fyrir útblástursloft.

2. gr.

Skilgreiningar.

Mælitæki: Sérhver búnaður eða kerfi sem gegnir mælihlutverki, sbr. 1., 3. og 4. gr. til­skipunar 2004/22/EB og ákvæði laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtar­menn.

Faggilding: Formleg viðurkenning þar til bærs stjórnvalds á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat.

Samræmismat: Mat á því hvort vara, ferli, kerfi eða aðili uppfylli kröfur.

Tilkynntur aðili: Aðili sem stjórnvöld hafa tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA, fram­kvæmda­stjórnar ESB og annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins að uppfylli viðeigandi kröfur til þess að fást við samræmismat samkvæmt tiltekinni tækni­legri reglugerð.

Tilnefndur aðili: Aðili sem stjórnvald hefur veitt tilnefningu.

Tilnefning: Heimild sem stjórnvald veitir aðila til að stunda tiltekna starfsemi við sam­ræmis­mat.

CE-merkið: Merki sem samanstendur af tákninu "CE" í samræmi við hönnunina sem mælt er fyrir um í d-lið B-hluta I. viðauka við ákvörðun 93/465/EBE, sbr. reglugerð nr. 957/2006, um aðferðareiningar fyrir hin ýmsu þrep samræmismatsins og reglur um áfestingu og notkun CE-samræmismerkja sem ætlað er að nota í tilskipunum um tækni­lega samhæfingu. CE-merkið skal vera a.m.k. 5 mm á hæð.

Viðbótarmælifræðimerki: Merki sem samanstendur af hástafnum "M" og tveimur síðustu tölustöfum í árinu sem merkinu var komið fyrir, með rétthyrningi utan um. Hæð rétt­hyrningsins skal vera jöfn hæð CE-merksins. Viðbótarmælifræðimerkinu skal komið fyrir strax á eftir CE-merkinu.

Löggildingarmiði: Löggildingartákn sem fest er á mælitæki og sýnir að það hafi lög­gildingu og sé löggildingarhæft í samræmi við lög og reglur sem gilda um mælitækið, sbr. nánari ákvæði um form og útlit í reglugerð nr. 955/2006, um löggildingartákn og merk­ingar eftirlitsskyldra mælitækja.

II. KAFLI

Um tilkynnta aðila, tilnefningu þeirra o.fl.

3. gr.

Tilkynntir aðilar.

Faggildingarsvið Einkaleyfastofu metur hæfni og hæfi aðila sem óska eftir tilnefningu í sam­ræmi við ákvæði laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl. og ákvæði þessarar reglu­gerðar. Um málsmeðferð við mat á tilnefndum aðilum fer nánar samkvæmt ákvæðum 9. gr. laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti tekur ákvörðun um að tilkynna aðila að fenginni til­nefningu faggildingarsviðs Einkaleyfastofu og umsögn Neytendastofu, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., sbr. og ákvæði tilskipunar 2004/22/EB, um mæli­tæki í viðauka við reglugerð þessa og tilkynnir framkvæmdastjórn ESB, Eftirlits­stofnun EFTA og öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu um tilkynnta aðila sem teljast hæfir skv. 1. mgr. þessarar greinar til að annast samræmismat á mæli­tækjum sem falla undir gildissvið þessarar reglugerðar og tilskipunar 2004/22/EB, um mæli­tæki.

Í tilnefningu faggildingarsviðs Einkaleyfastofu og tilkynningu iðnaðar- og viðskipta­ráðuneyta skal tekið fram fyrir hvaða mælitæki og aðferðareiningar tilnefning og tilkynn­ing aðila tekur til svo og aðrar nánari upplýsingar sem hafa áhrif á starfssvið hins tilkynnta aðila, sbr. að öðru leyti ákvæði í tilskipun 2004/22/EB, um mælitæki, laga og reglna settra samkvæmt þeim.

Niðurstöður samræmismats frá tilkynntum aðilum á Evrópska efnahagssvæðinu gilda hér á landi, sbr. 14. gr. laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl.

Upplýsingar um tilkynnta aðila sem starfa á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar og ákvæða í tilskipun 2004/22/EB, laga og reglna settra samkvæmt þeim skulu birtar á heimasíðu Neytendastofu.

4. gr.

Tilkynntir aðilar á þeim starfssviðum sem reglugerð þessi tekur til skulu uppfylla þau almennu skilyrði sem kveðið er á um í 12. gr. tilskipunar nr. 2004/22/EB sem birt er í viðauka við reglugerð þessa, svo og önnur skilyrði sem gilda um tilnefningu þeirra, sbr. ákvæði laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl.

Tilkynntum aðilum ber að taka þátt í samstarfi tilkynntra aðila sem hafa verið tilkynntir í samræmi við reglur á Evrópska efnahagssvæðinu og annast þau verkefni sem honum ber skylda til að framkvæma samkvæmt ákvæðum tilskipunar nr. 2004/22/EB, um mælitæki, laga og reglna settra samkvæmt þeim. Tilkynntum aðilum ber jafnframt að taka þátt í samræmingarstarfi Neytendastofu svo og samstarfsnefnda er hún starfrækir eða kann að starfrækja.

5. gr.

Um eftirlit með hæfni og hæfi tilkynntra aðila fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl. svo og viðeigandi alþjóðlegum stöðlum sem um starfsemi þeirra gilda svo og ákvæðum þessarar reglugerðar, eftir því sem við getur átt.

Felli faggildingarsvið Einkaleyfastofu niður tilnefningu tilkynnts aðila, sbr. 3. gr., skal hún tilkynna um það til iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta og Neytendastofu.

Ráðuneytið tilkynnir um brottfall tilkynningarinnar til framkvæmdastjórnar ESB, Eftirlits­stofnunar EFTA (ESA) og annarra aðildarríkja á Evrópska efnahagssvæðinu.

III. KAFLI

Um merkingar á nýjum mælitækjum o.fl.

6. gr.

Þegar mælt er fyrir um það í aðferð við samræmismat skal kenninúmeri hlutaðeigandi tilkynnts aðila, sem um getur í 11. gr. tilskipunar 2004/22/EB í viðauka við reglugerð þessa, komið fyrir á eftir CE-merkinu og viðbótarmælifræðimerkinu.

Þegar mælitæki samanstendur af nokkrum tækjum sem eru undireiningar og eru starf­rækt saman skal festa merkin á aðalbúnað tækisins.

Þegar mælitæki er of lítið eða of viðkvæmt til að bera CE-merki og viðbótar­mælifræði­merki skulu merkin vera á umbúðunum ef einhverjar eru, og í meðfylgj­andi skjölum sem krafist er í tilskipun 2004/22/EB, lögum og reglum settum samkvæmt þeim.

CE-merki og viðbótarmælifræðimerki skulu vera óafmáanleg. Kenninúmer hlutaðeigandi tilkynnts aðila skal vera óafmáanlegt eða eyðileggjast þegar það er fjarlægt. Öll merki skulu sjást greinilega og auðvelt að komast að þeim.

Framleiðendur, innflytjendur og dreifingaraðilar bera ábyrgð á því að öll ný mælitæki beri merki í samræmi við ákvæði 1., 2. og 4. mgr. þessarar greinar. Eigendur og ábyrgðar­aðilar bera ábyrgð á að ný mælitæki beri viðeigandi merki samkvæmt ákvæðum í reglugerð nr. 955/2006 um löggildingartákn og merkingar eftirlitsskyldra mælitækja með síðari breytingum.

IV. KAFLI

Áfrýjun, viðurlög og gildistaka.

7. gr.

Áfrýjun.

Ákvörðunum Neytendastofu samkvæmt ákvæðum í þessari reglugerð eða sérreglugerð­um sbr. 1. gr. er unnt að áfrýja til áfrýjunarnefndar neytendamála í samræmi við ákvæði laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, með síðari breytingum, svo og reglna settra samkvæmt þeim.

8. gr.

Viðurlög.

Neytendastofa getur beitt stjórnsýsluúrræðum, s.s. krafist úrbóta, lagt bann við notkun, lagt bann við sölu vöru eða krafist afturköllunar hennar, beitt dagsektum og stjórn­valdssektum í samræmi við ákvæði XI. kafla laga nr. 91/2006, um mælingar, mæli­grunna og vigtarmenn.

Sá sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn ákvæðum reglugerðar þessarar skal sæta fésektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar, sbr. 41. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn. Dæma má sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga og fésekt jafnframt fangelsi ef skilyrði 49. gr. almennra hegningarlaga eru fyrir hendi.

Sá sem gefur aðilum, sem annast framkvæmd laga og reglna þessara, rangar skýrslur skal sæta refsingu skv. XV. kafla almennra hegningarlaga.

Sektir samkvæmt lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og reglum þessum má gera jafnt lögaðila og einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Nánar fer um refsingu og ábyrgð lögaðila skv. ákvæðum 41. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

Nú varðar meint lögbrot bæði stjórnvaldssektum skv. 40. gr. laga nr. 91/2006 og refsingum skv. 41. gr. sömu laga, metur Neytendastofa þá með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða hvort mál skuli kært til lögreglu eða lokið með stjórnvalds­ákvörðun Neytendastofu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.

Ákvæði IV. og VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Neytendastofu að kæra mál til lögreglu.

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtar­menn og öðlast þegar gildi.

Viðskiptaráðuneytinu, 8. maí 2007.

Jón Sigurðsson.

Kristján Skarphéðinsson.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica