Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

120/1988

Reglugerð um leysitæki - Brottfallin

1. gr.

Notkun öflugra leysitækja sem ljósabúnaðar á stöðum, sem almenningur hefur aðgang að, er háð leyfi og eftirliti Geislavarna ríkisins. Þau tæki teljast öflug, sem eru í 3. og 4. flokki leysitækja samkvæmt alþjóðlegri flokkun slíkra tækja.

 

2. gr.

Áður en slíkur búnaður er settur upp á stað, sem almenningur hefur aðgang að, þarf að sækja um leyfi til Geislavarna ríkisins fyrir uppsetningu hans og starfrækslu. Með leyfisumsókn þurfa að fylgja tæknilegar upplýsingar um leysitækið, hvaða bylgjulengd það sendir frá sér og afl geislunar á hverri. Ennfremur þurfa að fylgja upplýsingar um þann búnað, sem notaður er til að stýra, dreifa og með öðrum hætti hafa áhrif á geislann. Sé hreyfing notuð til þess að halda geislun innan settra marka, skal gera grein fyrir þeim öryggisbúnaði sem á að grípa inn í, ef hreyfingin bregst (t.d. vegna bilunar í hreyfibúnaði). Með leyfisumsókn þarf einnig að fylgja teikning af svæðinu þar sem staða leysitækisins og allra hluta, sem geta haft áhrif á braut geislans, kemur greinilega fram. Með umsókn skal fylgja skoðunargjald, að upphæð kr. 15 000,00.

 

3. gr.

Óheimilt er að breyta áður samþykktri uppsetningu á slíkum ljósabúnaði án leyfis Geislavarna ríkisins.

 

4. gr.

Geislavarnir ríkisins setja nánari reglur um tæknilegan búnað, uppsetningu, eftirlit og notkun leysitækja, sem ljósabúnaðar á stöðum, sem almenningur hefur aðgang að.

 

5. gr.

Áður en leyfi til starfrækslu er veitt, skulu Geislavarnir ríkisins kanna, hvort geislun sé alls staðar innan þeirra marka, sem tiltekin eru í reglum stofnunarinnar.

 

6. gr.

Áður en leyfi til starfrækslu er veitt, skal umsækjandi láta útbúa skriflegar öryggisreglur í samráði við Geislavarnir ríkisins. Einnig skal hann skipa umsjónarmann með leysibúnaðin­um, og verður skipan hans að hljóta samþykki Geislavarna ríkisins. Umsjónarmaðurinn skal hafa fullnægjandi þekkingu á þeim búnaði, sem um er að ræða hverju sinni, og þeim öryggisráðstöfunum, sem nauðsynlegar eru til þess að tryggja öryggi starfsmanna og áhorfenda. Umsjónarmaðurinn ber ábyrgð á því að öllum öryggisreglum, er lúta að starfrækslu leysitækisins, sé fylgt.

 

7. gr.

Aðilar, sem þegar hafa tekið í notkun öflug leysitæki, sem þessi reglugerð nær til, skulu sækja um leyfi til áframhaldandi starfrækslu til Geislavarna ríkisins innan 30 daga frá gildistöku reglugerðarinnar. Með umsókn skulu fylgja upplýsingar og skoðunargjald samkvæmt 2. grein. Leysitæki sem þegar eru í notkun skulu uppfylla reglur Geislavarna 3 ríkisins, samkvæmt 4. grein, um tæknilegan búnað, uppsetningu og notkun.


 

8. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 22. grein laga nr. 117/1985 um geislavarnir, öðlast gildi frá og með birtingu.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 16. febrúar 1988.

 

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica