Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 31. maí 2016

931/2000

Reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.

1. gr. Gildissvið og markmið.

Reglugerð þessi tekur til kvenna sem eru starfsmenn og eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti og er markmið hennar að bæta öryggi og heilbrigði þeirra á vinnustöðum.

2. gr. Hugtök.

Þegar hugtökin "þunguð kona", "kona sem hefur nýlega alið barn" og "kona sem hefur barn á brjósti" eru notuð í reglugerð þessari er átt við starfsmenn sem hafa greint vinnuveitanda sínum frá því ásigkomulagi sínu.

3. gr. Mat og upplýsingar.

Þegar störf geta haft í för með sér hættu sakir mengunar, vinnuaðferða eða vinnuskilyrða, sbr. skrá í I. viðauka, skal vinnuveitandi eða þjónustuaðili á sviði vinnuverndar og forvarna, samkvæmt ósk vinnuveitanda, meta eðli hættunnar fyrir starfsmenn, sbr. 2. gr., á hlutaðeigandi vinnustað, umfang hennar og hve lengi hún stendur yfir svo unnt sé að:

a. meta áhættu fyrir öryggi og heilbrigði og hugsanleg áhrif á þungaðar konur eða konur sem hafa barn á brjósti,
b. taka ákvörðun um ráðstafanir.

Vinnuveitandi skal greina starfsmönnum í skilningi 2. gr. og starfsmönnum sem líklegt er að lendi í slíkum aðstæðum á hlutaðeigandi vinnustað og/eða fulltrúum þeirra frá niðurstöðum mats skv. 1. mgr. án tafar eftir að þær liggja fyrir og frá öllum ráðstöfunum er snerta öryggi og heilbrigði á vinnustað.

Leiðbeiningarreglur, sem Vinnueftirlit ríkisins gefur út um mat á efnafræðilegum, eðlisfræðilegum og líffræðilegum skaðvöldum og vinnsluaðferðum sem talið er að hafi hættu í för með sér fyrir starfsmenn í skilningi 2. gr., skulu vera til leiðbeiningar við mat skv. 1. mgr.

4. gr. Aðgerðir í kjölfar matsniðurstaðna.

Leiði niðurstöður mats skv. 1. mgr. 3. gr. í ljós að öryggi og heilbrigði konu sem er þunguð eða hefur barn á brjósti í skilningi 2. gr. er í hættu skal vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar.

Ef af tæknilegum ástæðum er óæskilegt eða ekki unnt að breyta vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma eða ekki er unnt að fara fram á það með gildum rökum svo að sanngjarnt geti talist skal vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fela starfsmanninum önnur verkefni. Vinnuveitandi eða starfsmaður geta leitað umsagnar Vinnueftirlits ríkisins áður en ákvörðun er tekin um breytingu á vinnuskilyrðum, vinnutíma eða verkefnum. Breyting á vinnutíma, vinnuskilyrðum eða verkefnum hefur ekki áhrif á launakjör til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Ef af tæknilegum ástæðum er óæskilegt eða ekki unnt að fela starfsmanninum önnur verkefni eða ekki er unnt að fara fram á það með gildum rökum svo að sanngjarnt geti talist skal veita honum leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hans og heilbrigði. Vinnuveitandi getur leitað umsagnar Vinnueftirlits ríkisins áður en ákvörðun er tekin um veitingu leyfis. Ef veita þarf þungaðri konu leyfi frá störfum á hún rétt á greiðslum, sbr. 3. mgr. 11. gr. og 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Hlutaðeigandi starfsmaður og/eða Tryggingastofnun ríkisins geta óskað eftir því að Vinnueftirlit ríkisins endurskoði ákvörðun vinnuveitanda um leyfisveitingu. Beiðni um endurskoðun skal liggja fyrir innan 14 daga frá því ákvörðun var formlega tilkynnt.

Ákvæði þessarar greinar gilda að breyttu breytandaum konu sem stundar starf sem bannað er skv. 5. gr. og verður þunguð eða hefur barn á brjósti, sbr. 2. gr.

5. gr. Tilvik þar sem vinna er bönnuð.

Óheimilt er að skylda þungaðar konur til að vinna störf sem mat skv. 1. mgr. 3. gr. hefur sýnt að gætu verið hættuleg vegna mengunar eða vinnuskilyrða, sbr. A-lið II. viðauka, og gætu stefnt öryggi og heilbrigði þeirra í voða.

Einnig er óheimilt að skylda konur sem hafa barn á brjósti til að vinna störf sem mat skv. 1. mgr. 3. gr. hefur sýnt að gætu verið hættuleg sakir mengunar eða vinnuskilyrða, sbr. B-lið II. viðauka, og gætu stefnt öryggi og heilbrigði þeirra í voða.

6. gr. Vinna að næturlagi.

Óheimilt er að skylda starfsmenn í skilningi 2. gr. til að vinna að næturlagi á meðgöngutíma og jafnframt í allt að sex mánuðieftir barnsburð, enda sé slíkt nauðsynlegt vegna öryggis og heilbrigðis hennar og hún staðfesti það með læknisvottorði.

Ef af tæknilegum ástæðum er óæskilegt eða ekki unnt að breyta vinnutíma eða ekki er unnt að fara fram á það með gildum rökum svo að sanngjarnt geti talist skal veita starfsmanni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hans og heilbrigði. Ef veita þarf þungaðri konu leyfi frá störfum á hún rétt á greiðslum, sbr. 3. mgr. 11. gr. og 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

7. gr. Eftirlit og kæruleiðir.

Vinnueftirlit ríkisins fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessararog annast kynningu hennar.
Um áfrýjun á ákvörðunum og úrskurðum sem byggjast á reglugerðinni gilda ákvæði 98. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

8. gr. Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum skv. 99. gr. laga nr. 46/1980.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 73. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, 11. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, og með hliðsjón af tilskipun nr. 92/85/EBE í viðbæti við XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðlast gildi 1. janúar 2001. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 679/1998 um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.