Félagsmálaráðuneyti

532/1996

Reglugerð um ráðstöfun barna í fóstur - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Hvenær barnaverndarnefnd er skylt að ráðstafa barni í fóstur.

Barnaverndarnefnd er skylt að ráðstafa barni í fóstur í samræmi við VI. kafla laga um vernd barna og ungmenna, og reglugerð þessa, þegar fósturráðstöfun er nauðsynleg þar sem aðbúnaði, umönnun eða uppeldi barns er áfátt vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra. Sama á við þegar barn verður forsjárlaust, svo sem við fráfall foreldra, eða fullreynt er að ekki næst til þeirra, eða aðrar þær aðstæður ríkja sem jafna má til þessa.

Þegar aðstæður barns eru með þeim hætti sem lýst er í 1. málsl. 1. mgr. skal barni ráðstafað í fóstur í samræmi við reglugerð þessa enda þótt fyrirhugaðir fósturforeldrar séu vandamenn barns og fósturráðstöfun sé gerð með samþykki foreldra þess.

Ákvæði reglugerðar þessarar eiga að jafnaði ekki við um vistun barna til aðila, sem fengið hafa leyfi barnaverndarnefndar til að taka börn til dvalar á einkaheimili í atvinnuskyni gegn gjaldi, sem ætlað er að vara í allt að sex mánuði, sbr. 51. gr. laga um vernd barna og ungmenna. Barnaverndarnefnd er heimilt að ráðstafa barni í fóstur til slíkra aðila að gættum ákvæðum reglugerðar þessarar.

2. gr.

Skilgreining á hugtökum.

1.         Fóstur.

Um fóstur samkvæmt reglugerð þessari er að ræða þegar barnaverndarnefnd felur fósturforeldrum forsjá eða umsjá barns þegar:

 a.        foreldrar, sem farið hafa með forsjá barns, samþykkja slíka ráðstöfun, sbr. g-lið 21. gr. laga um vernd barna og ungmenna, 

 b.        barn er forsjárlaust, svo sem við fráfall foreldra, eða fullreynt er að ekki næst til þeirra, eða aðrar þær aðstæður ríkja sem jafna má til þessa,

 c.        kynforeldrar hafa verið sviptir forsjá samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar eða barnaverndarráðs eða barn er í umsjá barnaverndarnefndar um tíma.

Þær fósturráðstafanir sem um getur verið að ræða eru tímabundið fóstur, og varanlegt fóstur að undangengnu reynslufóstri.

2.         Tímabundið fóstur.

Barni skal komið í tímabundið fóstur þegar ætla má að unnt verði að bæta úr því ástandi, sem lýst er í 1. mgr. 1. gr., innan skamms tíma þannig að barnið muni geta snúið aftur til foreldra sinna án verulegrar röskunar á högum sínum. Markmið tímabundins fósturs er að skapa aðstæður til að veita barninu og foreldrum þess nauðsynlega aðstoð þannig að barnið muni geta snúið aftur til foreldra sinna.

3.         Varanlegt fóstur.

Um varanlegt fóstur er að ræða þegar barni er komið í fóstur þar til forsjárskyldur falla niður lögum samkvæmt.

Barni skal komið í varanlegt fóstur þegar ástand það sem lýst er í 1. mgr. 1. gr. er mjög alvarlegt og ekki er fyrirsjáanlegt að unnt verði að bæta úr því nema til varanlegs fósturs komi. Markmið varanlegs fósturs er að fósturbarn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu með sama hætti og um eigið barn fósturforeldra væri að ræða.

4.         Reynslufóstur.

Áður en gerður er samningur um varanlegt fóstur skal barn dvelja til reynslu hjá væntanlegum fósturforeldrum í tiltekinn tíma samkvæmt ákvörðun barnaverndarnefndar. Reynslutími skal að jafnaði eigi vera lengri en þrír mánuðir og aldrei lengri en eitt ár.

Markmiðið með dvölinni er að kanna hvort aðstæður séu með þeim hætti á væntanlegu fósturheimili að henti þörfum og hagsmunum barns. Að reynslutíma loknum skal meta hvort það samræmist þörfum og hagsmunum barnsins að alast upp á fósturheimilinu.

Við reynslufóstur skal gerður fóstursamningur sem skal endurskoðaður þegar tekin hefur verið ákvörðun um varanlegt fóstur.

5.         Fóstursamningur.

Fóstursamningur er skriflegur samningur milli barnaverndarnefndar og fósturforeldra um fóstur á tilteknu barni. Skriflegan fóstursamning skal gera hvort sem barni er komið í varanlegt eða tímabundið fóstur, og hvort sem foreldrar hafa samþykkt fóstur eða ekki. Í fóstursamningi skal kveðið á um:

 a.        hver fer með forsjá, og umsjá barns ef við á, og að hvaða leyti, sbr. 29. gr. laga um vernd barna og ungmenna,

 b.        áætlaðan fósturtíma,

 c.        framfærslu barns og annan kostnað, svo sem fósturlaun, sbr. 32. gr. laga um vernd barna og ungmenna,

 d.        umgengni barns við kynforeldra og aðra,

 e.        stuðning barnaverndarnefndar við barn og fósturforeldra meðan fóstrið varir,

 f.         skyldur barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi fósturforeldra ef þeir eru ekki búsettir í umdæmi barnaverndarnefndar sem ráðstafaði barni í fóstur,

 g.        annað sem máli kann að skipta, sbr. eyðublöð barnaverndarstofu fyrir fóstursamninga.

6.         Forsjá og umsjá.

Forsjá fósturbarns felur m.a. í sér skyldu og rétt fósturforeldris til umönnunar og uppeldis barnsins og til að ráða persónulegum högum þess, í samráði við það sjálft miðað við aldur þess og þroska, og sjá um framfærslu þess eftir því sem nánar segir í fóstursamningi, sbr. einnig ákvæði barnalaga og lögræðislaga.

Með umsjá er átt við að barnaverndarnefnd feli fósturforeldrum einstaka þætti forsjárréttinda og -skyldna, svo sem daglega umönnun og uppeldi barns í tiltekinn tíma.

7.         Barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í fóstur.

Barnaverndarnefnd þar sem barn er búsett hverju sinni er bær til að taka ákvörðun um ráðstöfun barns í fóstur, sbr. nánar 8. gr. laga um vernd barna og ungmenna. Með samþykki barnaverndarstofu getur nefnd, sem hafið hefur afskipti af barni sem síðan flyst úr umdæmi nefndar áður en búið er að taka ákvörðun um ráðstöfun þess í fóstur, haft málið áfram til meðferðar, enda sé nauðsynlegt að ráðstafa því í fóstur án samþykkis forsjárforeldra á grundvelli 24. og 25. gr. laga um vernd barna og ungmenna.

3. gr.

Fósturbarn og réttindi þess.

Við ráðstöfun barns í fóstur skal barnaverndarnefnd stuðla af fremsta megni að því að stöðugleiki verði í uppvexti barnsins og sem minnst röskun á lífi þess. Ef unnt er skal systkinum fundið sameiginlegt fósturheimili.

Fósturbarn á auk þess rétt á:

 a.        góðum aðbúnaði hjá fósturforeldrum sínum og að þeir annist það af fyllstu umhyggju og nærgætni og svo sem best hentar hag þess og þörfum,

 b.        umgengni við kynforeldra sína og aðra þá sem eru því nákomnir, sbr. nánar 33. gr. laga um vernd barna og ungmenna,

 c.        stuðningi barnaverndarnefndar á meðan fóstur varir,

 d.        vitneskju um hvers vegna því var komið í fóstur og hvaða áform barnaverndarnefnd hefur um framtíð þess. Ræða ber þessi mál við barnið af fyllstu nærgætni og með hliðsjón af aldri þess og þroska og aðstæðum að öðru leyti.

Um inntak þessara réttinda skal ákveða nánar í fóstursamningi.

II. KAFLI

Fósturráðstöfun.

4. gr.

Mat á hæfni fósturforeldra.

Þeir, sem óska eftir að gerast fósturforeldrar, skulu afla sér meðmæla barnaverndarstofu og sækja um slík meðmæli beint til hennar.

Stofan metur, að fenginni umsögn barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi væntanlegra fósturforeldra, hæfni þeirra til að taka barn í fóstur. Áður en barnaverndarnefnd gefur umsögn skal hún kanna hagi og aðstæður væntanlegra fósturforeldra með tilliti til töku fósturbarns.

Við mat á hæfni væntanlegra fósturforeldra skulu könnuð almenn atriði, svo sem hvaða væntingar og kröfur fósturforeldrar hafa um töku barns í fóstur, hverjar óskir þeirra eru um aldur barns, kyn þess o.s.frv. Jafnframt skulu heimilishagir og allar aðstæður væntanlegra fósturforeldra kannaðar. Væntanlegum fósturforeldrum skal greint frá þeim skyldum sem á fósturforeldrum hvíla. Þeim ber að leggja fram sakavottorð, heilbrigðisvottorð, hjúskapar- eða sambúðarvottorð, ásamt upplýsingum um efnahag sinn, svo sem skattframtal eða vottorð um tekjur. Stofan og barnaverndarnefnd geta einnig óskað eftir meðmælum frá vinnuveitanda og umsögn ættingja. Jafnframt geta þessir aðilar aflað nánari upplýsinga um hagi væntanlegra fósturforeldra í samráði við þá.

Nú óska fósturforeldrar eftir að taka fleiri börn í fóstur og skulu þeir þá afla sér nýrra meðmæla barnaverndarstofu.

Barnaverndarstofa setur nánari reglur um mat á hæfni væntanlegra fósturforeldra.

5. gr.

Námskeið fyrir væntanlega fósturforeldra.

Barnaverndarstofa skal veita væntanlegum fósturforeldrum fræðslu með námskeiðahaldi.

6. gr.

Val á fósturforeldrum fyrir barn.

Barnaverndarnefnd, sem ráðstafar barni í fóstur, velur, í samráði við barnaverndarstofu, fósturforeldra fyrir barn úr hópi þeirra sem fengið hafa meðmæli stofunnar. Stofan skal hlutast til um að kanna hvort einhverjar breytingar hafa orðið á högum væntanlegra fósturforeldra ef meira en tvö ár eru liðin síðan stofan mat hæfni þeirra.

Barnaverndarnefnd ber að velja fósturforeldra af kostgæfni, með þarfir og hagsmuni viðkomandi barns að leiðarljósi, og með tilliti til aðstæðna, hæfni og reynslu væntanlegra fósturforeldra og mats á því hversu heppilegir uppalendur þeir munu verða fyrir viðkomandi barn.

Nefndin skal afla samþykkis barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi fósturforeldra fyrir fóstrinu, ef væntanlegir fósturforeldrar eru búsettir í öðru barnaverndarumdæmi.

7. gr.

Umsögn foreldris sem ekki fer með forsjá barns.

Áður en barni er ráðstafað í fóstur skal barnaverndarnefnd leita umsagnar foreldris sem ekki fer með forsjá barns.

8. gr.

Undirbúningur fósturforeldra og barns fyrir fóstur.

Barnaverndarnefnd, sem ráðstafar barni í fóstur, ber, áður en fóstur hefst, að undirbúa hina væntanlegu fósturforeldra rækilega undir hlutverk sitt, svo sem með upplýsingagjöf, viðtölum og öðru því sem að gagni má koma.            Barnaverndarnefnd skal upplýsa hina væntanlegu fósturforeldra um persónulega hagi barnsins og um önnur atriði sem nefndin telur máli skipta, svo sem um fyrirhugaða umgengni barnsins og tengsl þess við fjölskyldu sína.

Barnaverndarnefnd ber að undirbúa barnið undir viðskilnað frá kynforeldrum og væntanlegt fóstur.

9. gr.

Tilkynning til barnaverndarstofu og þjóðskrár um fósturráðstöfun.

Barnaverndarnefnd skal tilkynna barnaverndarstofu um gerð fóstursamnings. Nefndin skal einnig sjá til þess að þjóðskrá sé tilkynnt um breytta búsetu barns vegna fósturráðstöfunar.

10. gr.

Stuðningsaðilar.

Barnaverndarnefnd getur leitað samstarfs við þá aðila, sem rétt er að veiti barni stuðning á fósturheimili, svo sem starfsfólk skóla, leikskóla, heilsugæslu og svæðisskrifstofu í málefnum fatlaðra, sbr. 16. gr. laga um vernd barna og ungmenna.

III. KAFLI

Réttarstaða fósturbarns.

11. gr.

Forsjá.

Fósturforeldrar skulu að jafnaði fara með forsjá fósturbarns, nema annað þyki betur henta þörfum barns og hagsmunum að mati barnaverndarnefndar.

Í fóstursamningi skal tiltaka nánar inntak réttinda og skyldna fósturforeldra gagnvart barni.

12. gr.

Lögráð.

Lögráð barns geta ýmist verið í höndum fósturforeldra og/eða sérstaklega skipaðs lögráðamanns, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögræðislaga, nr. 68/1984.

13. gr.

Umgengnisréttur.

Við fósturráðstöfun skal taka afstöðu til inntaks umgengnisréttar barns við kynforeldra sína og aðra því nákomna. Við ákvörðun þar að lútandi skal tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best.

Við ákvörðun um umgengni skal barnaverndarnefnd gefa kynforeldrum, og öðrum sem telja sig eiga umgengnisrétt við barn, tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og taka tillit til þeirra eftir því sem unnt er.

Barnaverndarnefnd skal taka ákvörðun um umgengni með úrskurði, nema samkomulag sé um hana en þá skal gerður um hana skriflegur samningur milli barnaverndarnefndar og þeirra sem umgengni eiga að rækja. Hann skal vera fylgiskjal fóstursamnings. Fósturforeldrum skal kynntur slíkur samningur áður en gengið er frá honum, sbr. 2. mgr. 8. gr.

Þeir, sem umgengni eiga að rækja, geta krafist breytinga á áður ákvarðaðri umgengni. Barnaverndarnefnd skal taka ákvörðun um slíka kröfu með úrskurði nema samkomulag náist um breytingu á umgengnisrétti barnsins.

14. gr.

Framfærsluskylda.

Framfærsluskylda felur fyrst og fremst í sér skyldu til að tryggja efnalega velferð barns, fæða það og klæða og sjá því fyrir húsaskjóli. Jafnframt að stuðla að menntun barns og eðlilegri þátttöku þess í félagslífi, eftir því sem aðstæður leyfa. Framfærsluskyldu lýkur við 18 ára aldur.

Fósturforeldri er skylt að framfæra fósturbarn sem væri það eigið barn þess.

15. gr.

Framfærsla og annar kostnaður vegna barns í fóstri.

Þegar barni er ráðstafað í fóstur skal í fóstursamningi ákveða hver skuli vera framfærslueyrir með því. Að jafnaði skal miða við fjárhæð barnalífeyris eins og hann er ákveðinn hverju sinni samkvæmt lögum um almannatryggingar. Tryggingastofnun ríkisins greiðir fósturforeldrum hina umsömdu fjárhæð, allt að fimmföldum barnalífeyri, en þeirri nefnd sem ráðstafaði barninu í fóstur, ber síðan að endurgreiða Tryggingastofnuninni þá fjárhæð. Barnaverndarnefnd ber að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um gerð fóstursamnings í samræmi við reglur, sem Trygggingastofnunin hefur sett.

Auk umsamins framfærslueyris geta fósturforeldrar átt rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð.

Sé samið um hærri fjárhæð framfærslueyris í fóstursamningi en sem nemur fimmföldum barnalífeyri, svo sem um fósturlaun eða greiðslu á öðrum kostnaði, greiðist hann fósturforeldrum beint úr sveitarsjóði þeirrar barnaverndarnefndar sem ráðstafaði barninu í fóstur. Undir hugtakið _annar kostnaður" geta til dæmis fallið útgjöld vegna meiri háttar tannlækninga, vegna alvarlegra eða langvarandi sjúkdóma og sérstaks menntunarframlags. Ef kostur er skal geta um annan kostnað í fóstursamningi.

Fósturforeldrar geta farið fram á greiðslur á ófyrirséðum kostnaði með rökstuddri beiðni til þeirrar barnaverndarnefndar sem ráðstafaði barninu í fóstur. Beiðni skal koma fram innan sex mánaða frá því að fósturforeldrum var kunnugt um útgjöldin. Ef ekki næst samkomulag milli barnaverndarnefndar og fósturforeldra um greiðslur skal nefndin afgreiða málið með rökstuddri bókun.

Um kostnað vegna skólagöngu barns á grundvelli laga um grunnskóla fer samkvæmt almennum reglum um greiðslur sveitarfélaga til reksturs grunnskóla.

IV. KAFLI

Aðstoð og eftirlit barnaverndarnefndar meðan fóstur varir.

16. gr.

Aðstoð við fósturforeldra.

Barnaverndarnefnd skal veita fósturforeldrum aðstoð, eftir því sem þörf þykir, á meðan fóstur varir og samkvæmt nánari ákvæðum í fóstursamningi.

17. gr.

Eftirlit með fóstri.

Barnaverndarnefnd skal hafa eftirlit með aðbúnaði og líðan þess barns, sem hún ráðstafar í fóstur, og fylgjast gaumgæfilega með því að ráðstöfunin nái tilgangi sínum. Eftirlit skal fara fram eigi sjaldnar en einu sinni á ári og oftar ef ástæða þykir til.

 

18. gr.

Samstarf barnaverndarnefnda.

Ef barnaverndarnefnd ráðstafar barni í fóstur í annað umdæmi fer hún áfram með málið. Hún getur þó farið þess á leit að barnaverndarnefnd í heimilisumdæmi barns, taki að sér tilteknar skyldur. Um slíkt skal getið í fóstursamningi.

Verði barnaverndarnefnd í heimilisumdæmi barns þess áskynja að fósturforeldrar vanræki hlutverk sitt ber henni að tilkynna slíkt þegar í stað nefnd þeirri, sem ráðstafaði barninu, og gera tafarlaust ráðstafanir og beita viðeigandi úrræðum til að vernda barnið. Hið sama á við breytist aðstæður barnsins verulega þannig að ástæða sé til að ætla að nefndin ætti að láta málið til sín taka.

V. KAFLI

Endurupptaka máls og lok fósturs.

19. gr.

Afturköllun samþykkis til fósturs.

Nú afturkallar foreldri samþykki sitt til fósturs og skal þá barnaverndarnefnd taka málið til meðferðar. Við úrlausn máls skal fyrst og fremst taka mið af velferð barnsins. Barnaverndarnefnd er þá jafnan heimilt að úrskurða að barn, sem er í fóstri, skuli vera kyrrt hjá fósturforeldrum ef það fer vel um það og hagsmunir barnsins mæla með því.

20. gr.

Breyttar aðstæður foreldra sem sviptir hafa verið forsjá.

Breytist aðstæður foreldra verulega frá því að úrskurður um forsjársviptingu var kveðinn upp, þannig að ætla megi að foreldrar séu nú hæfir til þess að fara með forsjána, geta þeir farið fram á það við barnaverndarnefnd að hún taki mál þeirra upp á ný. Barnaverndarnefnd metur hvort mál skuli endurupptekið og afgreiðir beiðnina með bókun. Við úrlausn málsins skal velferð barns ávallt ganga fyrir.

21. gr.

Endurskoðun fóstursamnings.

Barnaverndarnefnd getur breytt fóstursamningi eða fellt hann úr gildi með rökstuddum úrskurði. Nefndinni er jafnframt heimilt að úrskurða að barn, sem er í fóstri, dvelji þar áfram ef vel fer um það og ef það mæli gegn hagsmunum barnsins að breyting verði gerð þar á. Fer um málsmeðferð skv. VIII. kafla laga um vernd barna og ungmenna.

22. gr.

Breyttar aðstæður hjá fósturforeldrum.

Ef aðstæður fósturforeldra breytast svo sem vegna skilnaðar, andláts eða búferlaflutninga, ber fósturforeldrum, eða þeim sem eftirlit hefur með fóstrinu, að tilkynna barnaverndarnefnd, sem barninu ráðstafaði, um það og skal hún þá endurskoða fóstursamning, ef ástæða þykir til.

Fósturforeldrar geta einnig óskað endurskoðunar á tilteknum atriðum í fóstursamningi eða samningnum í heild.

23. gr.

Fóstri lýkur vegna þess að barn er orðið sjálfráða.

Þegar fóstri lýkur, vegna þess að barnið er orðið sjálfráða, getur barnaverndarnefnd tekið málið til umfjöllunar og metið hvort þörf sé á að gera sérstakar ráðstafanir til að barn verði áfram á fósturheimilinu. Veita skal barninu og fósturforeldrum þess aðstoð eftir að barnið hefur náð sjálfræðisaldri, allt eftir þörfum hverju sinni.

VI. KAFLI

Lokaákvæði.

24. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með heimild í 2. mgr. 39. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytinu, 28. september 1996.

Páll Pétursson.

Anna G. Björnsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica