Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

829/1999

Reglugerð um einkennisfatnað fangavarða og forstöðumanna fangelsa, merki þeirra og öryggisbúnað. - Brottfallin

1. Gerð fatnaðar.

A. Einkennisfatnaður.

1.1 Húfa skal vera úr bláu efni með 5 cm breiðri uppistandandi gjörð, 5 cm breiðri reisn, kringlóttum, flötum kolli, gljáleðurskyggni og hökuól, er fest sé á gjörðina með tveimur litlum einkennishnöppum. Á gjörðinni skal vera svartur borði úr upphleyptu efni.

Framan á reisninni skal vera skjaldarmerki ríkisins, 4 cm að hæð, úr málmi. Undir merkinu skal vera jafnstór hringur úr mjúku svörtu plastefni eða svörtu taui.

Húfa skal borin samkvæmt sérstakri ákvörðun yfirmanns í fangelsi hverju sinni.

1.2 Jakki skal vera úr bláu klæðisefni úr blöndu af ullarefni og gerviefni sem ákveðin er af fangelsismálastofnun, einhnepptur með þremur einkennishnöppum, með venjulegum kraga.

Á hvorri ermi skulu vera þrír litlir einkennishnappar, fremst meðfram ermasaum.

Á jakkanum skal vera einn brjóstvasi vinstra megin og tveir innri brjóstvasar. Einnig skulu vera tveir hliðarvasar.

1.3 Buxur skulu vera úr sama efni og jakki, án uppbrota, með fjórum vösum.

1.4 Skyrta skal vera ljósblá úr blöndu af bómull og gerviefni, sem ákveðin er af fangelsismálastofnun, heilerma með venjulegum kraga. Á henni skulu vera axlasmeygar með tilheyrandi stöðutákni hlutaðeigandi starfsmanns. Á skyrtunni skulu vera tveir djúpir brjóstvasar með loki, en þó skal vera u.þ.b. 2 cm opið bil þar sem lok er saumað fast innanvert á vasaloki. Armmerki út taui með áletruninni fangavörður skal vera fest á vinstri ermi, og skal efri brún vera 7 cm fyrir neðan axlasaum.

1.5 Peysa skal vera blá að lit, sem ákveðin er af fangelsismálastofnun. Hún skal búin axlasmeygum með tilheyrandi stöðutákni hlutaðeigandi starfsmanns og armmerki úr taui með áletruninni fangavörður skal fest á vinstri ermi eins og um skyrtu væri að ræða. Um heila peysu er að ræða með v-laga hálsmáli.

1.6 Hálsbindi skal vera úr tauefni í sama lit og jakki og buxur.

1.7 Fjölnotaúlpa skal vera af vandaðri gerð og skal efni hennar vera viðurkennt vatns- og vindhelt úlpuefni. Gert skal ráð fyrir að úlpan sé nothæf sem yfirhöfn allt árið og skal fylgja henni innra fóður úr flísefni eða öðru hlýju efni sem má fjarlæga eða setja í úlpuna eftir þörfum. Að öðru leyti skal gerð hennar ákveðin af fangelsismálastofnun.

1.8 Skór skulu vera svartir reimaðir flatbotna leðurskór.

1.9 Sokkar skulu vera svartir.

1.10 Hanskar skulu vera svartir fóðraðir leðurhanskar.

1.11 Belti skal vera svart eða dökkblátt leðurbelti eftir ákvörðun fangelsismálastofnunar.

1.12 Íþróttagalli skal vera tvískiptur, buxur og peysa, með eða án hettu. Gerð hans skal vera samkvæmt ákvörðun fangelsismálastofnunar. Íþróttaskór skulu vera samkvæmt ákvörðun fangelsismálastofnunar.

1.13 Flíspeysa skal vera úr bláu flísefni, með áletruninni Fangelsi ríkisins vinstra megin að framan.  Að öðru leyti skal gerð hennar ákveðin af fangelsismálastofnun.

 

B. Annar fatnaður.

1.14 Kuldasamfestingur úr hlýju og sterku efni skal vera í bláum lit og með einkennismerki ákveðnu af fangelsismálastofnun.

1.15 Vinnusloppur skal vera samkvæmt ákvörðun fangelsismálastofnunar og með merki samkvæmt ákvörðun hennar.

 

2. Klæðaburður.

2.1 Fangaverðir í fangelsum skulu ganga í einkennisfatnaði við störf sín samkvæmt þessari reglugerð.

2.2 Fangaverðir skulu ávallt vera snyrtilegir til fara. Fatnaði, sem þeim er lagður til, ber þeim að halda vel við og sjá til þess að hann sé hreinn og snyrtilegur. Yfirmenn skulu fylgjast með klæðaburði fangavarða, og ber þeim að sjá til þess að klæðnaður sé í samræmi við gildandi reglur.

2.3 Forstöðumenn einstakra fangelsa mega vera óeinkennisklæddir við störf sín, enda sé það ákveðið í samráði við forstjóra fangelsismálastofnunar. Þeir skulu þó ávallt bera auðkenniskilríki innan fangelsis sem sýnir að þeir eru starfsmenn fangelsis.

2.4 Þegar fangaverðir sinna sérstökum verkefnum, svo sem fangaflutningum, mega þeir vera í einkennisfatnaði án einkenna í samráði við forstöðumann, en þá er þeim skylt að bera á sér fangavarðaskilríki.

2.5 Við sérstök tækifæri getur forstöðumaður fangelsis eða forstjóri fangelsismálastofnunar ákveðið tiltekinn klæðaburð.

2.6 Fangelsismálastofnun getur ákveðið að nemar í fangavarðaskóla ríkisins skuli klæðast einkennisfatnaði í kennslustundum.  Skólinn leggur nemendum til bláa samfestinga til æfinga og nota utanhúss.

 

3. Auðkennismerkingar og skilríki fangavarða.

3.1 Einkennismerki fangavarða er hringlaga merki með bláum grunni og gylltri rönd umhverfis hringinn.  Í miðju merkisins er skjaldarmerki Íslands en ofan við skjaldarmerkið er áletrunin FANGAVÖRÐUR.

3.2 Fangavarðaskilríki skulu vera úr pappír, plasthúðuð eða í plasthylki, þar sem fram kemur nafn og staða hlutaðeigandi starfsmanns svo og ljósmynd af honum. Skilríkin skulu vera undirrituð af forstöðumanni viðkomandi fangelsis.  Þegar fangavörður er að störfum, skal hann sanna á sér deili með framvísun skilríkisins.  Skilríki ber að afhenda forstöðumanni þegar látið er af starfi.

3.3 Einkennishnappar fangavarða eru hringlaga, gylltir með upphleyptri mynd af skjaldarmerki Íslands. Hnapparnir eru í tveimur stærðum. Minni gerðin er 16 mm að þvermáli en sú stærri 21 mm að þvermáli.

3.4 Nafnmerki getur fangelsismálastofnun ákveðið að starfsmenn skuli bera í jakka, peysu og skyrtu, og ákveður hún gerð þess.

 

4. Stöðueinkenni fangavarða.

4.1 Stöðueinkenni fangavarða skulu vera með eftirfarandi hætti:

1. Fangavörður án skóla og fangavarðarnemi;

skal bera axlarsmeyga án borða.

2. Fangavörður að loknum skóla;

skal bera einn gylltan borða 6 mm breiðan nær axlarbrún og einn gylltan borða 3 mm breiðan nær hálsmáli.

3. Aðstoðarvarðstjóri ;

skal bera einn gylltan borða 6 mm breiðan nær axlarbrún og annan 3 mm, 2 mm innar og einn gylltan borða 3 mm breiðan nær hálsmáli. Hann skal bera eina slétta, gyllta plötu, 24 x 10 mm að stærð á hvorum axlarsmeyg. Á jakka ber hann eitt lítið skjaldarmerki úr málmi, 22 mm að hæð, á hvoru kragahorni.

4. Varðstjóri;

skal bera einn gylltan borða 6 mm breiðan nær axlarbrún og annan 3 mm, 2 mm innar og einn gylltan borða 3 mm breiðan nær hálsmáli. Hann skal bera tvær sléttar, gylltar plötur, 24 x 10 mm að stærð á hvorum axlarsmeyg. Á jakka ber hann eitt lítið skjaldarmerki úr málmi, 22 mm að hæð, á hvoru kragahorni.

5. Deildarstjóri;

skal bera tvo gyllta borða 6 mm breiða nær axlarbrún með 2 mm millibili og einn gylltan borða 3 mm breiðan nær hálsmáli. Hann skal bera eina gyllta fimmarma stjörnu, 16 mm í þvermál, á hvorum axlarsmeyg. Á jakka ber hann eitt lítið skjaldarmerki úr málmi, 22 mm að hæð, á hvoru kragahorni.

6. Yfirfangavörður;

skal bera tvo gyllta borða 6 mm breiða nær axlarbrún með 2 mm millibili og einn gylltan borða 3 mm breiðan nær hálsmáli. Hann skal bera tvær gylltar fimmarma stjörnur, 16 mm í þvermál, á hvorum axlarsmeyg. Hann skal bera tvo 10 mm breiða borða á hvorri jakkaermi ofan við ermahnappa, með 5 mm millibili og ná milli ermasauma. Á jakka ber hann eitt lítið skjaldarmerki úr málmi, 22 mm að hæð, á hvoru kragahorni.

7. Forstöðumaður;

skal bera tvo gyllta borða 6 mm breiða nær axlarbrún með 2 mm millibili og einn gylltan borða 3 mm breiðan nær hálsmáli. Hann skal bera þrjár gylltar fimmarma stjörnur, 16 mm í þvermál, á hvorum axlarsmeyg. Hann skal bera þrjá 10 mm breiða borða á hvorri jakkaermi ofan við ermahnappa, með 5 mm millibili og ná milli ermasauma. Á jakka ber hann eitt lítið skjaldarmerki úr málmi, 22 mm að hæð, á hvoru kragahorni.

 

5. Úthlutun einkennisfata til fangavarða.

5.1 Fangaverðir sem eru skipaðir í fullt starf fá afhent einkennisföt sem hér segir:

5.1.1 Tvo jakka, eina fjölnota úlpu, tvennar buxur, þrjár skyrtur, eina peysu, einn íþróttagalla, eitt par af íþróttaskóm, tvö hálsbindi, eitt belti, eitt par af hönskum, eitt par af skóm og fern pör af svörtum sokkum.

5.2 Skipaðir fangaverðir fá einkennisföt endurnýjuð sem hér segir :

5.2.1 Á hverju ári tvær skyrtur, tvennar buxur, eitt par af skóm og fern pör af sokkum.

5.2.2 Annað hvert ár einn jakka, eina peysu og einn íþróttagalla.

5.2.3 Þriðja hvert ár fjölnota úlpu, eitt belti, eitt par af íþróttaskóm og eitt par af hönskum.

5.2.4 Fangaverði er heimilt að velja sér annan einkennisfatnað í stað þess sem tilgreindur er í greinum 5.2.1 til 5.2.3, enda sé þar um að ræða einkennisfatnað sem er sambærilegur í kostnaði og samþykktur hefur verið af fangelsismálastofnun ríkisins.  Fangelsismálastofnun ákveður þannig gerð fatnaðarins, merkingu hans og notkun. 

Fangelsismálastofnun ríkisins gefur út lista í upphafi hvers árs, eða þegar verðbreytingar eiga sér stað, yfir einkennisfatnað sem samþykktur hefur verið af stofnuninni.  Þar er hverri tegund einkennisfatnaðar gefinn ákveðinn punktafjöldi sem tekur mið af kostnaði fatnaðarins.  Fangavörður getur þannig skipt út úthlutuðum einkennisfatnaði samkvæmt greinum 5.2.1 til 5.2.3, í einkennisfatnað sem er sambærilegur að punktafjölda. Safna má upp punktum yfir þriggja ára tímabil en að þremur árum liðnum fellur punktainneign niður og ný inneign byrjar að myndast.  Yfir þetta þriggja ára tímabil má í heildina muna 5 punktum á þeim einkennisfatnaði sem skipt er út og þeim einkennisfatnaði sem tekinn er í staðinn.

5.2.5 Úthlutun fatnaðar skal að jafnaði fara fram fyrri hluta árs.

5.3 Fangaverðir sem settir eru í embætti til afleysinga skulu í upphafi starfs fá afhent einkennisföt til láns sem henta starfsemi viðkomandi fangelsis, samkvæmt mati forstöðumanns, en þó ekki minna en sem hér segir:

5.3.1 Í upphafi starfs einn jakka, tvennar buxur, tvær skyrtur, eitt hálsbindi og eitt par af skóm.

5.3.2 Endurlánsúthlutun til afleysingafangavarða skal fara fram eftir eitt ár samfellt í starfi en eftir mati forstöðumanns ef aðeins er um sumarvinnu að ræða. Eftir tvö ár samfellt í starfi skulu afleysingafangaverðir fá sömu úthlutun og skipaðir fangaverðir og öðlast sömu réttindi til eignar og viðhalds á einkennisfatnaðinum.

5.3.3 Við starfslok skulu afleysingafangaverðir skila þeim fötum sem þeim hafa verið lánuð.  Ef fangavörður hlýtur skipun skal hann halda þeim einkennisfötum sem hann hefur fengið úthlutað sem afleysingafangavörður og dragast þau þá frá úthlutun einkennisfata skv. 5.1.1.

5.4 Venjulegt viðhald og þrif einkennisfata annast fangaverðir sjálfir, en skipaðir fangaverðir skulu þó eiga rétt á að fá greiddan kostnað við hreinsun einkennisfata tvisvar á ári.

5.5 Nú eyðileggjast eða skemmast einkennisföt svo að ekki verður úr bætt, og skal fangaverði þá úthlutað nýjum einkennisfötum í stað þeirra samkvæmt ákvörðun forstöðumanns. Ónýtu fötin skulu afhent forstöðumanni. Slík aukaúthlutun dregst ekki frá næstu reglulegu úthlutun.

5.6 Skipaðir fangaverðir teljast vera eigendur einkennisfata, sem þeim hefur verið úthlutað, eftir að þeim hafa verið afhent ný einkennisföt við næstu reglulegu úthlutun, sjá þó grein 5.7 um einkennishúfu.

5.7 Skipaðir fangaverðir skulu fá afhenta eina einkennishúfu eftir að þeir hafa staðist próf í fangavarðaskóla ríkisins, og síðan framvegis eftir mati forstöðumanns. Við afhendingu nýrrar einkennishúfu skal fangavörður skila síðustu húfu sem hann hefur fengið afhenta.

5.8 Við starfslok skulu skipaðir fangaverðir skila aftur þeim einkennisfötum sem þeir fengu síðast afhent og teljast ekki vera þeirra eign. Við starfslok skulu þeir jafnframt skila öllum einkennum og einkennismerkjum.

5.9 Allur öryggisbúnaður sem fangaverðir fá afhentan er eign ríkisins og ber fangavörðum að skila honum eftir ákvörðun forstöðumanns og aldrei síðar en þegar starfi lýkur.

5.10 Vinnusloppa, kuldasamfestinga, hálsbindi og annan vinnufatnað afhenda forstöðumenn fangelsa á hverjum vinnustað í samræmi við reglur sem fangelsismálastofnun setur.

5.11 Að öllu jöfnu skal einkennisfatnaður afhentur starfsmanni á hans vinnustað á vinnutíma.

 

6. Öryggisbúnaður.

6.1 Daglegur öryggisbúnaður fangavarða er öryggishnappur, talstöð, handjárn og einnota hanskar. Fangelsismálastofnun ákveður gerð öryggishnappa og talstöðva og hvernig bera skuli tækin. Hanska ber að hafa í vasa án sérstaks veskis. Handjárn skulu vera í sérstökum handjárnavasa á buxum eða í jakkavasa þannig að þau séu ekki sýnileg.

6.2 Lykla skal festa í smeyga á buxnastreng eða á belti með keðju eða sérstökum lásum. Lyklar mega ekki vera utanáliggjandi né sýnilegir.

6.3 Á varðstofu skal vera til taks nauðsynlegur búnaður í sérstökum beltum sem fljótlegt er að grípa til þegar þörf krefur. Handjárn skulu ávallt vera á slíkum beltum, hulstur fyrir talstöð, hulstur fyrir táragas og annan búnað sem fangelsismálastofnun ákveður. Kylfur skulu vera til taks á varðstofum.

6.4 Sérstakan viðlagabúnað, skotheld vesti, hjálma, skildi og aðrar slíkar verjur skal geyma á öruggum stað í fangelsum. Slíkur búnaður er ætlaður til nota þegar fást þarf við uppþot, uppreisn, gíslatöku eða meiriháttar mótþróa fanga. Einungis fangavörðum, sem hlotið hafa tilskilda þjálfun í meðferð búnaðarins er heimilt að nota hann. Það sama á við um notkun reykköfunartækja og annars viðlíka björgunarbúnaðar sem til staðar kann að vera.

6.5 Varðstjóri eða yfirmaður á vakt skal taka ákvörðun um notkun öryggisbelta og kylfa. Sama gildir um notkun viðlaga- og björgunarbúnaðar. Um notkun viðlagabúnaðar skulu þó gilda sérstakar reglur.

 

7. Önnur ákvæði.

7.1 Fangelsismálastofnun annast framkvæmd þessarar reglugerðar í umboði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Hún getur falið tiltekinni stofnun að annast afhendingu fatnaðarins og verður fatnaðurinn aðeins afhentur gegn tilvísun forstöðumanns.

7.2 Dóms- og kirkjumálaráðuneytið sker úr ágreiningi er rísa kann vegna túlkunar á þessari reglugerð.

7.3 Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist, sbr. lög nr. 123/1997, og öðlast gildi 1. janúar 2000.  Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um sama efni nr. 670, 11. desember 1996.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 19. nóvember 1999.

 

Sólveig Pétursdóttir.

Hjalti Zóphóníasson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica