Utanríkisráðuneyti

146/2009

Reglugerð um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir varðandi Íran. - Brottfallin

1. gr.

Almenn ákvæði.

Reglugerð þessi er sett til þess að framfylgja ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um þvingunaraðgerðir varðandi Íran nr. 1737 (2006), 1747 (2007) og 1803 (2008) og ákvörðunum framkvæmdanefndarinnar um þvingunaraðgerðir varðandi Íran, sbr. ályktun nr. 1737 (2006) (http://www.un.org/sc/committees/1737/index.shtml).

Ákvæði reglugerðar nr. 119/2009 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða skal gilda um framkvæmd reglugerðar þessarar.

2. gr.

Kjarna- og skotflaugabúnaður.

Aðilum hérlendis og íslenskum aðilum erlendis er óheimilt að selja, miðla, útvega, flytja eða flytja út frá Íslandi eða með skipum, sem sigla undir íslenskum fána, eða með íslenskum loftförum, með beinum eða óbeinum hætti, hluti til Írans, til afnota fyrir Íran eða í þágu Írans, hvort sem þeir eru upprunnir hérlendis eða ekki, sem kynnu að ýta undir starfsemi Írana á sviði auðgunar úrans, endurvinnslu þess eða framleiðslu tengda þungu vatni eða undir þróun burðarkerfa fyrir kjarnavopn, sbr. 3.-5. mgr. ályktunar nr. 1737 (2006) og 8. mgr. ályktunar nr. 1803 (2008).

Hlutir skv. 1. mgr. eru nánar tilgreindir í skjölum öryggisráðsins nr. S/2006/814 og S/2006/815, dags. 13. október 2006, sbr. I. og II. viðauka.

Aðilum hérlendis og íslenskum aðilum erlendis er óheimilt að veita Íran nokkra tæknilega aðstoð, þjálfun, fjárhagsaðstoð, fjárfestinga-, miðlunar- eða aðra þjónustu eða fjármuni í tengslum við sölu, flutning, framleiðslu eða notkun á hlutum skv. 1. mgr., sbr. 6. mgr. ályktunar nr. 1737 (2006).

Bannað er að veita opinberu fé til stuðnings útflutnings til Írans, þ.m.t. útflutningslán, útflutningsábyrgðir eða útflutningstryggingar, sem gæti stuðlað að kjarnastarfsemi Írans eða þróun burðarkerfa fyrir kjarnavopn skv. 1. mgr., sbr. 9. mgr. ályktunar nr. 1803 (2008).

Bannað er að flytja inn frá Íran, svo og að flytja með skipum, sem sigla undir íslenskum fána, eða með íslenskum loftförum, hluti, sem tilgreindir eru í 1. mgr., hvort sem hlutirnir eru upprunnir þar eða ekki, sbr. 7. mgr. ályktunar nr. 1737 (2006).

3. gr.

Bann við viðskiptum með hergögn.

Vopnasölubann skal gilda gagnvart Íran, svo og bann við innflutningi hergagna frá Íran, sbr. 5. og 6. mgr. ályktunar nr. 1747 (2007).

4. gr.

Skoðunarskylda.

Nú hefur loftfar eða skip í eigu eða á vegum Iran Air Cargo eða Islamic Republic of Iran Shipping Line viðkomu á Íslandi með farm sem er á leið til eða frá Íran og skal þá skoða farminn, enda sé gild ástæða til að ætla að loftfarið eða skipið flytji hluti, sem bann er lagt við samkvæmt reglugerð þessari, sbr. 11. mgr. ályktunar nr. 1803 (2008).

5. gr.

Landgöngubann.

Aðilum, sem öryggisráðið eða framkvæmdanefndin tilgreinir, sbr. III. viðauka, er óheimilt að koma til landsins eða hafa hér viðkomu, sbr. 10. mgr. ályktunar nr. 1737 (2006), 2. mgr. ályktunar nr. 1747 (2007) og 3.-6. mgr. ályktunar nr. 1803 (2008).

6. gr.

Frysting fjármuna.

Frysta skal fjármuni og efnahagslegan auð í eigu aðila sem öryggisráðið eða framkvæmdanefndin tilgreinir, sbr. III. viðauka, sbr. 12. mgr. ályktunar nr. 1737 (2006), 4. mgr. ályktunar nr. 1747 (2007) og 7. mgr. ályktunar nr. 1803 (2008).

7. gr.

Bann við fjárhagsaðstoð.

Óheimilt er að veita Íran styrki, fjárhagsaðstoð eða vildarlán, nema í mannúðarskyni eða til þróunaraðstoðar, sbr. 7. mgr. ályktunar nr. 1747 (2007).

8. gr.

Tilkynningarskylda fjármálafyrirtækja.

Fjármálafyrirtæki skulu tilkynna fjármálaeftirlitinu og utanríkisráðuneytinu um viðskipti sín við banka, sem hafa aðsetur í Íran, einkum Bank Melli og Bank Saderat, svo og útibú þeirra og dótturfyrirtæki erlendis, sbr. 10. mgr. ályktunar nr. 1803 (2008).

9. gr.

Undanþágur frá þvingunaraðgerð.

Ráðherra getur veitt undanþágur frá þvingunaraðgerðum, sem gripið hefur verið til á grundvelli ályktana öryggisráðsins, af mannúðarástæðum eða öðrum ástæðum.

10. gr.

Viðurlög.

Hver sá sem brýtur gegn þvingunaraðgerðum skv. lögum nr. 93/2008 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða skal sæta viðurlögum skv. 10. gr. laganna, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

11. gr.

Heimild.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 12. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunar­aðgerða nr. 93/2008.

12. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Utanríkisráðuneytinu, 20. janúar 2009.

Össur Skarphéðinsson.

Benedikt Jónsson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica